Við fengum þessa umfjöllun eftir Margréti Blöndal senda um daginn, hún birtist í Gestgjafanum vorið 2005 og er hér birt með góðfúslegu leyfi höfundar.

Ektafiskur – Fjórir ættliðir í saltfiski og sá fimmti í þjálfun!

Hann var ekki nema 12 ára patti á skaki með pabba sínum þegar hann fór að gera athugasemdir við það að salfiskurinn væri allur fluttur út í 50 kílóa strigapokum. Það fer engum sögum af undirtektum viðstaddra en hann ákvað að þessu yrði að breyta og alla tíð síðan hefur það verið hrein hugsjón hjá Elvari Reykjalín að gera saltfiskinn aðgengilegan fyrir alla.

Elvar á nú fyrirtækið Ektafisk sem afi hans lagði grunnin að árið 1940, ásamt konu sinni Guðlaugu J. Carlsdóttur og dætrum þeirra þremur. Þær hafa allar unnið í fyrirtækinu ásamt foreldrum sínum og nú er fyrsta barnabarnið farið að taka til hendinni í gulum gúmmígalla.

Saltfiskur í morgunmat

Ektafiskur varð fyrstur til að bjóða upp á beinhreinsaðan og útvatnaðan saltfisk í neytendaumbúðum hér á landi og eftir góðar viðtökur á heimamarkaði var ákveðið að bjóða Spánverjum að smakka. Sá útflutningur hefur gengið með miklum ágætum enda kunna þeir að meta þær sérstöku vinnsluaðferðir sem Ektafiskur notar við sína framleiðslu. Saltfiskurinn frá Ektafiski er ekki sprautusaltaður heldur liggur hann í marga mánuði í saltinu og þarf mikla umönnum og umhyggju áður en hann endar útvatnaður á borðum neytenda. Það kostaði líka miklar vangaveltur að ná þeim árangri að útkoman úr framleiðsluferlinu væri alltaf sú sama og í mörg ár var ævinlega salfiskur í morgunmat hjá fjölskyldunni til að allir gætu fylgst með stöðu mála. Þessi ótrúlega natni varð svo til þess að nú getur fólk gengið að því sem vísu að fiskurinn er ekki bara fyrsta flokks heldur líka alltaf eins; mátulega saltur og tilbúinn til matreiðslu. Það má því með sanni segja að það heit sem var strengt um borð í litlum báti fyrir tæpum 40 árum hafi verið haldið af sannri trúmennsku og alla tíð hefur fyrirtækið átt því láni að fagna að hafa haft frábært fólk í vinnu sem hefur tekið þátt í að láta drauminn verða að veruleika.

0
    0
    Karfan þín